Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri

19.11.2014

Heimsókn á leikskólana

Nemendur í 1. bekk fara í leikskólaheimsókn fimmtudaginn 20. nóvember kl. 8:15 – 10:30. Börnin eiga að mæta í leikskólann sinn þennan morgun. Börn sem voru á Æskukoti mæta þangað og börn sem voru á Brimveri mæta þangað. Starfsmaður fer með börnunum á báða staðina, börnin borða morgunmat í leikskólanum. Eftir heimsóknina förum við í skólann og klárum skóladaginn þar. Þetta er hluti af samstarfi milli leikskólana og grunnskólans.

 

Bestu kveðjur,

Gunnhildur Gestsdóttir grunnskólakennari

14.11.2014

Starfsdagur og foreldraviðtöl í BES

Starfsdagur kennara er mánudaginn 17. nóvember og þá er frí hjá nemendum.

Viðtalsdagur er þriðjudaginn 18. nóvember og fara viðtöl fram á Stokkseyri.  Foreldrar fá úthlutað viðtalstíma með börnum sínum. Ef tíminn hentar ekki hafið þið samband við umsjónarkennara.

Skólavistin er opin frá 07.45 þessa daga og eru forráðamenn beðnir um að láta skólavistina vita ef menn ætla  að nýta sér þessa þjónustu. Símar eru 480 3218 / 861 3691.

Kveðjur,

Starfsmenn Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri

Árshátíð unglingastigs BES 2014
13.11.2014

Árshátíð unglingastigs BES 2014

Á dögunum fór árshátíð unglingastigs BES fram í húsnæði skólans á Stokkseyri. Nemendur stigsins breyttu sal skólans í stórglæsilegan hátíðarsal fyrr um daginn og mættu svo í sínu fínasta pússi á hátíðina um kvöldið. Þar var snæddur dásamlegur hátíðarkvöldverður, grísasteik með ís og ávöxtum í eftirrétt. Að borðhaldi loknu skemmtu bekkir stigsins sér og starfsfólki með frábærum skemmtiatriðum og að því loknu var stiginn dans fram á kvöld. Nemendur eiga sannalega hrós skilið fyrir frábært kvöld. Myndir frá árshátíðinni er að finna á Fésbókarsíðu BES.

Olweusardagurinn í BES
12.11.2014

Olweusardagurinn í BES

Föstudaginn 7. nóvember síðastliðinn var Olweusardagurinn haldinn í Barnaskólanum á Eyrabakka og Stokkseyri en dagurinn er baráttudagur gegn einelti. Nemendur og starfsfólk skólans klæddust grænum lit en græni liturinn táknar samstöðu og vinskap og er einnig litur verndarans í Olweusarverkefninu.

Eldri nemendur skólans sóttu yngri vinabekki í heimastofur og söfnuðust allir á sal skólans þar sem vinalagið úr Leikfangasögu var sungið. Að því loknu héldust nemendur og starfsfólk hönd í hönd og mynduðu keðju utan um skólan sinn og snæddu svo saman hádegisverð. Sannarlega vel heppnaður dagur við stöndina þar sem vináttan og gleðin var við völd. 

 

3.11.2014

Jól í skókassa

Miðvikudaginn 5. nóvember næstkomandi fer fram hátíðin Jól í skókassa í húsnæði BES á Stokkseyri. Nemendaráð unglingastigs mun selja vöfflur og kakó en húsnæðið er opið milli kl. 17 og 19. Á heimasíðu KFUM og KFUK er að finna eftirfarandi upplýsingar um Jól í skókassa:

„Jól í skókassa“ er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Með slíkum gjöfum er þeim sýndur kærleikur Guðs í verki. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa.
Fyrir jólin 2004 ákvað hópur ungs fólks innan KFUM & KFUK að láta reyna á verkefnið hér á landi. Undirtektirnar voru frábærar og söfnuðust rúmlega 500 kassar það árið. Verkefnið hélt svo áfram að spyrjast út og árið 2005 urðu skókassarnir 2600. Sú tala hefur síðan tvöfaldast því undanfarin ár hafa borist í kringum 5000 gjafir.

Stjórnendur

Sjá allar fréttir