Stoðþjónusta

Sérfræðiþjónusta í grunnskólum

Skólaþjónusta Árborgar sinnir sérfræðiþjónustu við leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu.  https://www.arborg.is/stjornsysla/svid-og-deildir/ny-forsida-fraedslusvids/skolathjonusta-arborgar/ . Deildarstjóri stoðþjónustu er tengiliður við skólaþjónustuna.  Allar umsóknir vegna  sérfræðiþjónustu og greininga fara í gegnum tengiliðinn.  Foreldrar geta haft frumkvæði að athugunum og er bent á að hafa samband við umsjónarkennara eða deildarstjóra stoðþjónustu sem fyrsta skref. Deildarstjóri stoðþjónustu og foreldrar þurfa að skrifa undir allar beiðnir um sérfræðiþjónustu. Mikilvægt er að farið sé með allar umsóknir sem trúnaðarmál.

Stoðþjónusta

Stoðþjónusta við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri er samheiti yfir stuðningskerfi sem styður við almenna kennslu innan skólans. Stoðþjónusta getur falist í ráðgjöf til kennara varðandi kennslu eða annað er snýr að nemendum. Helstu verkefni stoðþjónustu snúa þó að nemendum og varða kennslu og stuðning til lengri eða skemmri tíma og/eða mat á stöðu þeirra.

Skólinn leitast við að veita öllum nemendum sínum námstilboð við hæfi. Of er stoðþjónustan er ein af leiðum skólans til þess að komast til móts við þarfir nemenda sem af einhverjum ástæðum þurfa sérstakan stuðning í námi, tímabundið eða um lengri tíma. Stoðþjónustan getur falið í sér breytingar á námsmarkmiðum, námsumhverfi, kennsluaðferðum og námsmati miðað við það sem almennt gerist og er þá kennt samkvæmt markmiðum einstaklingsáætlunar sem er einstaklingsbundin kennsluáætlun. Í einstaklingsáætlun kemur fram hvar nemandi stendur í námi, tiltekin markmið sem ætlað er að ná á skólaárinu og aðferðir sem eru notaðar til að meta hvort nemandinn hafi náð settum markmiðum.

Stoðþjónustan nær yfir sérkennslu og stuðning, námsráðgjöf og annarra sérfræðiaðstoðar og innan hennar starfa eftirfarandi aðilar:

Sérkennarar eða kennarar sem sjá um sérkennslu ýmist í hópum eða einstaklingsbundið, inni í bekk eða í sérkennslustofu. Þeir aðstoða kennara við aðlögun námsefnis og námsmats þegar þörf er á og vinna einstaklingsnámskrár og áætlanir fyrir nemendur í samvinnu við kennara og þroskaþjálfa.

Þroskaþjálfar vinna í flestum tilfellum með ákveðnum nemendum en geta einnig stutt við nemendahópa til dæmis í félagsfærniþjálfun. Þeir vinna náið með kennurum og sérkennurum að gerð einstaklingsnámskrár og áætlana fyrir nemendur.

Stuðningsfulltrúar vinna undir leiðsögn deildarstjóra, kennara og þroskaþjálfa við að styðja nemendur námslega og félagslega. Þeir vinna mest inni í bekk bæði með einstaklingum og hópum.

Námsráðgjafi  stendur  vörð um velferð allra nemenda, styður þá og liðsinnir í málum sem snerta nám, skólavist, framhaldsnám og starfsval. Jafnframt sinnir hann ráðgjöf til kennara.

Sérfræðingar við skólaþjónustu Árborgar koma að málefnum nemenda eftir því sem þurfa þykir. 

Stoðþjónusta Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri byggirá starfsemi nemendaverndarráðs í samvinnu við fagfólk utan hans. Má þar nefna: Barnavernd Árborgar, skólaþjónustu Árborgar,  Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem og fleiri og sér deildarstjóri stoðþjónustu um samskipti við þessa aðila fyrir hönd skólans.

 

Deildarstjóri stoðþjónustu er Sædís Ósk Harðardóttir.

 

Stoðþjónustan starfar í samræmi við lög um grunnskóla, reglugerð um nemendur með sérþarfir og reglugerð um sérfræðiþjónustu í skólum. Samkvæmt þeim lögum er skóli án aðgreiningar sú stefna sem unnið er eftir við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri. Í því felst, samkvæmt reglugerð nr. 585/2010, að skólinn sé fyrir öll börn á skólaskyldualdri, sem búa á skólasvæðinu, og eru á skólaskyldualdri og að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.

Nemendur með sérþarfir teljast þeir sem eiga í erfiðleikum með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun eða geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengda erfiðleika teljast einnig til nemenda með sérþarfir.

Sérkennsla

Sérkennslan er ein af leiðum skólans til að koma til móts við námsþarfir nemenda sem af einhverjum orsökum þurfa sérstakan stuðning í námi. Sérkennsla er samkvæmt skilgreiningu sérstakur stuðningur í námi fyrir nemendur sem eiga erfitt með nám vegna sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar.Kennslan getur verið einstaklingsbundin eða farið fram í hópi, innan bekkjardeildar eða utan.

Grundvöllur sérkennslu er greining á námsstöðu og vanda nemandans þannig að hægt sé að velja efni og aðferðir sem skila honum sem mestum árangri. Aðrar greiningar sem að gagni koma, eftir atvikum, geta verið frá sálfræðingi, lækni, sjúkraþjálfara, talmeinafræðingi o.fl.

Framkvæmd sérkennslunnar er með fjölbreyttum hætti. Hún getur falið í sér verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og / eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum er boðið upp á. Sérkennsla er skipulögð til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans, jafnvel alla skólagöngu hans. Kennsla einstakra nemenda eða nemendahópa fer ýmist fram innan eða utan almennra bekkjardeilda, í námsveri eða tónmenntastofum. Hlutverk og markmið sérkennslunnar er fyrst og fremst að fylgjast með og sinna nemendum sem ekki hafa náð lágmarksfærni í íslensku og stærðfræði. Þörf fyrir sérkennslu er metin í samráði við umsjónarkennara en einnig er kannað markvisst hvort nemendur hafa náð lágmarksviðmiðum. Kennsla nemenda með annað móðurmál fellur einnig undir sérkennslu í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Umsjónarkennarar láta deildarstjóra stoðþjónustu í té upplýsingar um námsframvindu þeirra sem eiga undir högg að sækja í námi og koma til hans og /eða lausnateymis óskum um sérstakan stuðning fyrir einstaka nemendur. Á hverju vori fylla umsjónarkennarar út beiðnir um sérkennslu/stuðning fyrir næsta skólaár í samráði við forráðamenn nemenda. Auk þess er allt skólaárið, til dæmis í kjölfar skimana og námsmats, hægt að vísa máli nemenda til lausnateymis og óska eftir ráðgjöf og stuðningi. Nemendur sjálfir, foreldrar og allir kennarar skólans geta óskað eftir sérkennslu, stuðningi eða að leitað sé annarra sérstakra leiða til að bæta líðan og/eða námsárangur nemenda. Foreldrar og forráðamenn eru eindregið hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara eða deildarstjóra stoðþjónustu hafi þeir áhyggjur af námsframvindu barna sinna, félagslegum samskiptum eða líðan þeirra.

Mikilvægt er að til séu greiningar á vanda nemenda frá viðurkenndum greiningaraðilum svo að inngrip og stuðningur verði sem markvissast. Nemendum er yfirleitt vísað í lestrargreiningu við lok 3. bekkjar í kjölfar Logos skimunar, ef það er mat sérkennara, umsjónarkennara eða foreldra að þörf sé á að skoða lestrarerfiðleika nemanda frekar en gert hefur verið. Nemendum er vísað í greiningar til sálfræðinga eða annarra sérfræðinga ef ástæða þykir til að skoða aðra erfiðleika svo sem almenna námsörðugleika, einbeitingarvanda, hegðunarvanda eða vanlíðan.

Þegar metið er hvers konar úrræði/stuðningur/sérkennsla koma nemendum að mestu gagni er eftirfarandi haft til hliðsjónar:

 • Niðurstöður greininga,
 • niðurstöður skimana í læsi og stærðfræði sem lagðar eru árlega fyrir í ákveðnum árgöngum,
 • almennt námsmat, bæði símat og mat við annaskil.

Markmið allrar kennslu í skólanum eru í stórum dráttum:

 • Að styrkja jákvæða sjálfsmynd nemandans og sjálfstæði.
 • Að efla hæfni nemandans til félagslegra samskipta.
 • Að auka færni nemandans bæði í bóklegum og verklegum greinum.

Ef nemandi fylgir ekki jafnöldrum í almennri kennslu kemur sérkennsla til skjalanna. Þar er reynt að mæta þörfum nemenda með því að:

 • Styðja nemendur í að halda í við jafnaldra í námsefni árgangsins
 • Aðlaga námsefni og kröfur að hverjum og einum nemanda.

Kennslan fer ýmist fram inni í bekk þar sem því verður við komið eða nemanda er kennt einstaklingslega eða í litlum hópi utan bekkjar. Alltaf er reynt að sjá til þess að sérkennslan sé í sem bestum tengslum við bekkjarkennsluna þannig að heildarnám nemandans raskist sem minnst. Gerðar eru námsáætlanir fyrir nemanda eða nemendahópa þar sem koma fram upplýsingar um markmið, leiðir og hvernig og hvenær meta skuli árangur. Til að tryggja sem best hag nemenda er leitað eftir aðstoð sérfræðinga innan og utan skólans t.d. varðandi greiningar og/eða kennslu ef þurfa þykir. Góð samvinna heimilis og skóla er nauðsynleg ef sérkennslan á að koma að tilætluðum notum.

Helstu erfiðleikar sem nemendur eiga við að etja eru:

Mál/talörðugleikar.

Lestrarörðugleikar.

Skriftarörðugleikar

Stafsetningarörðugleikar

Stærðfræðiörðugleikar.

Tvítyngi, þarf kennslu í íslensku.

Félagsfærni

Annað.

Einstaklingsnámskrá

Einstaklingsnámskrá er gerð fyrir þá nemendur sem geta ekki af einhverjum ástæðum fylgt skólanámskrá. Uppbygging námskránna er mismunandi en allar byggja þær á  Aðalnámskrá grunnskóla, bekkjarnámskrám en fela oft í sér veruleg frávik frá þeim og taka til markmiða, inntaks og leiða fyrir ákveðið tímabil.

Einstaklingsnámskrá byggir jafnframt á viðmiðum, greinandi prófum og skimunarprófum.

Einstaklingsnámskrá tekur til námslegra og/eða félagslegra þátta, til hluta eða allra þátta skólaveru nemandans. Námsáherslur, námsefni og kennsluaðferðir eru aðlagaðar þörfum nemandans og í tengslum við líf hans. Námsmarkmið eru skýr og skilgreind og  séu eins mælanleg og kostur er. Í námskránni kemur fram hvernig nemandanum er mætt í skóla án aðgreiningar og þar skulu koma fram þær upplýsingar sem gagnlegar eru varðandi nám, skólagöngu og virka þátttöku hans. Í einstaka námsgreinum getur áherslan verið á félagslega færni en í öðrum geta markmið nemandans haft beina skörun við markmið bekkjar- og/eða skólanámskrár.

Eftirfarandi þættir eru hafðir í huga við einstaklingsnámskrárgerð:

 1. Heildaraðstæður nemandans.
 2. Mat á styrkleikum nemandans og mikilvægustu áskorunum.
 3. Teymi og/eða samstarf um nemandann við aðila innan og utan skólans, hverjir, hvernig.
 4. Nám og námsaðstæður:
 • Hindranir í námsumhverfi, hvernig draga má úr áhrifum þeirra eða ryðja þeim úr vegi.
 • Tenging við bekkjar- og aðalnámskrá.
 • Námsmarkmið og leiðir.
 • Námslegur stuðningur, í hverju felst hann.
 • Námsgögn og námsumhverfi.
 • Námsmat og mat á framvindu.
 1. Félagsstaða og félagslegt umhverfi:
 • Hindranir í félagslegu umhverfi, hvernig draga má úr áhrifum þeirra eða ryðja þeim úr vegi.
 • Félagsleg markmið og leiðir.
 • Námsgögn
 • Félagslegur stuðningur, í hverju felst hann.
 • Mat á framvindu.
 1. Endurmat og ábyrgðaraðilar.

 

Lausnateymi

Lausnateymi er starfrækt við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri og er til stuðnings kennurum og starfsfólks vegna nemenda með námserfiðleika og hegðunar- og samskiptaörðugleika.

Markmið lausnateymis er:

 • Að veita kennurum stuðning og ráðgjöf vegna nemenda með sérþarfir.
 • Að stuðla að aukinni samvinnu innan skólans varðandi lausnir fyrir umrædda nemendur.
 • Að meta þarfir nemandans með hliðsjón af margvíslegum upplýsingum um hann

Teymið veitir kennurum og öðru starfsfólki skólans ráðgjöf vegna vanda sem upp getur komið. Unnið er markvisst að lausnaleit, stig af stigi og eftir hvern fund liggja fyrir hugmyndir af lausnum sem mögulegt væri að nota og þeim komið áfram.

Kennarar senda beiðnir til lausnateymis á sérstöku eyðublaði ef þeir telja sig þurfa á aðstoð og/eða ráðgjöf að halda. Beiðnir vegna greininga á nemendum fara í gegnum lausnateymi. Lausnateymið tekur fyrir beiðnir frá kennurum. Ef ekki tekst að vinna með málið í lausnateymi er því vísað í nemendaverndarráð.

Í teyminu sitja deildarstjóri stoðþjónustu sem stýrir teyminu, aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri yngra stigs og þroskaþjálfi. Kennarar og aðrir eru kallaðir inn á fund þegar þurfa þykir. Fastir fundir eru í lausnateyminu a.m.k. tvisvar í mánuði. Teymið fundar oftar eða vikulega ef þurfa þykir, t.d. ef mörg mál berast.

 

Nemendateymi

Nemendateymi eru sett upp fyrir þá nemendur sem þess þurfa. Markmið með þeim er að sinna nemendum með náms-, félags- og/eða hegðunarerfiðleika til að utanumhald verði skilvirkari og öruggari. Einnig til að dreifa ábyrgð á málum nemeandans.

Hvert nemandateymi samanstendur a.m.k. af: deildarstjóra stoðþjónustu, umsjónarkennaraog foreldri.  Til viðbótar þeim koma oft að teymum  sérkennari, skólasálfræðingur, kennsluráðgjafi, ráðgjafi tvítyngdra barna, þroskaþjálfi og aðrir sérfræðingar eftir því sem þurfa þykir.

Deildarstjóri stoðþjónustu er formaður teymis, en hann getur falið öðrum stjórnanda að taka við teyminu. Hann er fundarstjóri og boðar til fundanna og ritar fundargerð á þar til gerð eyðublöð. Hann heldur einnig utan um skráningu upplýsinga. Hann sér um að fundargerðir og aðrar viðeigandi upplýsingar séu til staðar í trúnaðarmöppu nemandans.

Fundir ársins: Einn stöðufundur, einn upplýsingafundur, eftirfylgnifundir og einn lokamatsfundur. Gert er ráð fyrir að fundir séu stuttir og markvissir.

 • Stöðufundur: Hann er haldinn án foreldra. Tíminn er c.a. 45 mínútur. Þar er farið yfir greiningar og staða nemandans metin í náms- og félagslegu tilliti (hegðun, líðan, atferli, nám og tengsl). Gott er að kalla eftir upplýsingum frá sem flestum er að nemandanum koma fyrir fundinn. Upplýsingar um nemandann eru samræmdar og gerð úttekt á þeirri aðstoð sem nemandinn fær í skóla (er verið að beita réttum aðferðum í þeirri aðstoð sem boðið er upp á og er upplýsingaflæði í lagi?). Formaður teymis skráir stutta fundargerð. Fundarmenn skrifa undir fundargerð.
 • Upplýsingafundur: Allt teymið kemur saman í c.a. 40 mínútur, einnig foreldrar. Upplýsingar um nemandann eru samræmdar sem og aðgerðir heima og í skóla. Leggja skal áherslu á jákvæða og góða samvinnu. Verið sé að leita lausna um fram allt annað. Teymið setur sér markmið um hvaða árangri skal náð fyrir fyrsta eftirfylgnifund. Formaður teymis skráir stutta fundargerð og dagsetur fyrsta eftirfylgnifund. Fundarmenn skrifa undir fundargerð.
 • Eftirfyglnifundur: Allt teymið kemur saman í 30 mínútur a.m.k. einu sinni á önn. Staðan metin og markmið endurskoðuð. Dagsetja skal næsta eftirfylgnifund í lok fundar. Formaður teymis skráir stutta fundargerð. Fundarmenn skrifa undir fundargerð.
 • Lokamatsfundur: Halda skal þennan fund í skólalok og allt teymið kemur saman. Á þessum fundi er árangur vetrarins metinn og veikleikar og styrkleikar skoðaðir, eins konar uppgjör eftir veturinn. Teymið skoðar nemandann fyrir sumarið og leggur línurnar fyrir næsta haust. Formaður teymis skráir stutta fundargerð. Fundarmenn skrifa undir fundargerð.

Nemendaverndarráð

Nemendaverndarráð starfar í skólanum samkvæmt lögum. Þar sitja skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri stoðþjónustu, deildarstjóri yngra stigs, þroskaþjálfi hjúkrunarfræðingur, skólasálfræðingur, kennsluráðgjafi frá skólaþjónustu Árborgar, félagsráðgjafi frá félagsþjónustu Árborgar
Nemendaverndarráð fjallar um öll þau mál nemenda sem þurfa sérstakrar umfjöllunar við og leitar úrræða á vandamálum er upp koma bæði námslegum og félagslegum Tilvísanir eða beiðnir um aðstoð frá kennurum eða foreldrum eru teknar fyrir á fundunum og málum vísað til réttra aðila, s.s. hjúkrunarfræðings, sálfræðings, námsráðgjafa, sérkennara eða annað. Mál sem koma inn á borð nemendaverndaráðs eru búin að fá umfjöllun í lausnateymi skólans þar sem kennarar geta lagt mál fyrir og óskað eftir því að þau verði tekin fyrir.

Nánar er kveðið á um hlutverk, skipan og störf nemendaverndarráðs í reglugerð 584/2010