Námsráðgjöf

Verkefni

Hlutverk námsráðgjafa er að aðstoða nemendur, foreldra og aðra sem að skólanum koma eða starfa. Vera ráðgjafi og vinna að velferð nemenda.

 

Námsráðgjafi

Námráðgjafi í Barnaskólanum er Guðrún Thorsteinsson og hægt er að ná sambandi við hana í gegnum tölvupóst eða á viðtalstímum.

Hlutverk Námsráðgjafa er að standa vörð um velferð allra nemenda, styðja þá og liðsinna þeim í málum er snerta nám, skólavist, framhaldsnám og starfsval. Námsráðgjafinn er málsvari nemenda og trúnaðarmaður og leitast við að aðstoða þá við lausn persónulegra vandamála.

Þú getur leitað til Námráðgjafans með málefni sem tengjast náminu, s.s.:

 • heimanám
 • námsleiða
 • skipulagsleysi
 • einbeitingu
 • prófkvíða
 • óstundvísi
 • fallhættu
 • trassaskap
 • mætingar
 • námsleiðir
 • starfsval 

 

 NOKKRIR PUNKTAR Í NÁMSTÆKNI EFSTA STIG

Nám

Til þess að nám verði árangursríkt þarf að einbeita sér að því.

 • Settu þér markmið með náminu.
 • Notaðu tímann í skólanum vel með því fylgjast vel með, spyrja kennarann og vinna að verkefnum.
 • Einbeittu þér að því sem sagt er, ekki láta aukahjóð trufla þig.
 • Ef þú skilur ekki það sem sagt er, hikaðu ekki við að spyrja.
 • Skrifaðu hjá þér aðalatriði.

Heimanám

Til að heimalærdómur skili árangri þarf að sinna honum.

 • Áttaðu þig hvar og hvenær er best að stunda heimanámið á sama stað á sama tíma daglega.
 • Það getur borgað sig að skipta stærri verkefnum upp í smærri einingar.
 • Þurfi að læra ákveðnar staðreyndir utan að, borgar sig að skipuleggja hvernig best er að læra þær því stundum hentar ekki að læra þær allar utan að í einu.
 • Við ritgerðasmíð getur verið ágætt að láta 1-2 daga líða frá því að „uppkast“ er gert og þar til lokið er við hana.

Áætlun

Það skiptir miklu að þú stjórnir tíma þínum en látir hann ekki stjórna þér, til þess þarf sjálfsaga. Til að hafa stjórn þarftu að gera eftirfarandi:

 • Settu þér markmið, – og stefndu að árangri.
 • Að setja sér markmið er að einsetja sér að ná ákveðnu takmarki, hvort sem það er til styttri eða lengri tíma.
 • Áætlun er gerð til að ná markmiðinu miðað við tíma. Tímaáætlun veitir aðhald og fær mann til að hefjast handa, því oft getur reynst erfitt að koma sér að verki.
 • Framkvæma og fylgja áætluninni kostar sjálfsaga, því þú þarft að treysta á sjálfan þig til að ná settu marki. Í námi er einna mikilverðast að aga sig til að gera það sem þarf að gera á réttum tíma, hvort sem manni líkar betur eða verr.

Skipulagning

Notaðu Skóladagbókina til að minna þig á heimanám, próf, ritgerðir og annað það sem er þér mikilvægt. Til þess að skóladagbókin komi að notum þarf að nota hana daglega. Skipulegðu tíma þinn þannig að ákveðinn tími sé ætlaður til náms og breyttu skipulagningunni þar til hún hæfir markmiðum þínum. Þegar þú lýkur verkefni skaltu merkja við það í bókinni og færðu ólokin verkefni yfir á næsta dag. Yfirfarðu áætlunina í vikulokin og gerðu viðeigandi ráðstafanir fram í tímann.

Glósutækni

Til þess að glósur komi að gagni þarf að vera hægt að lesa þær.

 • Skrifaðu dagsetningu og númeraðu blaðsíðurnar.
 • Hlustaðu og einbeittu þér að aðalatriðum, reyndu ekki að skrifa allt niður sem sagt er.
 • Hugsaðu um það sem sagt er og umorðaðu í þín eigin orð.
 • Hafðu glósurnar snyrtilegar og líttu yfir þær sem fyrst og bættu inní það sem vantar.

Upprifjun

Til þess að muna það sem maður hefur lært þarf að rifja upp reglulega.

 • Í lok hvers dags skaltu líta yfir efni dagsins og í lok hverrar viku borgar sig að taka stutta upprifjun.
 • Reyndu að tengja það sem þú ert að læra við eitthvað sem þú þekkir.
 • Dragðu saman stuttan útdrátt úr hverjum kafla, það er árangursrík aðferð í námi.

Undirbúningur fyrir próf

Besti undirbúningur fyrir próf er að sinna náminu samviskusamlega og rifja upp reglulega.

 • Útbúðu strax lestraráætlun fyrir próf þannig kemurðu í veg fyrir tímahrak.
 • Finndu til bækur, próf, verkefni og gerðu yfirlit yfir öll atriði sem eru til prófs.
 • Mikilvægt er að vera virkur við lesturinn, því er gott að lesa fleiri en einn texta um sama efnisþátt, skrifa hjá sér minnisorð og leysa verkefni.
 • Leggðu á minnið helstu staðreyndir og reglur.
 • Reyndu að búa til spurningar úr námsefninu og svaraðu þeim síðan.
 • Hafðu með þér öll gögn sem nota þarf í prófinu og taktu með þér skriffæri til vara.

Í prófi

Hlustaðu vel á allar leiðbeiningar og ábendingar kennara í upphafi prófs.

 • Byrjaðu á að lesa öll fyrirmæli á prófblaðinu.
 • Svaraðu fyrst þeim spurningum sem þér sýnast auðveldastar.
 • Lestu hverja spurningu nokkrum sinnum yfir, til að vera viss um hvað spurt er um.
 • Breyttu ekki svari þínu nema vera viss í þinni sök.
 • Farðu yfir prófið að lokum og athugaðu hvort öllu hafi verið svarað.

Mundu að í Grunnskóla er lagður grunnur að framhaldsskólanámi og síðar framtíðarvinnu og það skiptir máli að undirbúa sig vel svo maður geti valið það sem hugur manns stendur til.

 

 

 

NOKKRIR PUNKTAR Í NÁMSTÆKNI MIÐSTIG

 

Námstækni

Hér er að finna nokkur atriði í námstækni sem gott er að tileinka sér því miklu skiptir að temja sér skipulögð og góð vinnubrögð strax í upphafi.

Nám er vinna – erfið vinna sem krefst orku og einbeitingar.

 • Hugaðu að matarræði – það þarf orku yfir daginn.
 • Gættu að því að borða góðan og hollan mat – sælgæti gefur orku sem nýtist í mjög skamman tíma.
 • Hugaðu að hvíld – reglulegur svefn er mikilvægur.
 • Lítill og óreglulegur svefn veldur minnisleysi og minnkar athygli og einbeitingu.
 • Hugaðu að vinnu-aðstæðum – hafðu rólegt og notalegt í kringum þig. Það eykur vinnugleði og einbeitingu.
 • Hugaðu að líkamsrækt – Með henni eykur þú hringrás blóðsins og færð þannig meira súrefni og næringu til heilans. Og þú verður betur upplögð/agður fyrir nám og störf.

Að læra í skólanum.

 • Notaðu kennslustundirnar í skólanum vel, þar geturðu fengið aðstoð, lærir betur og minnkar heimalærdóm.
 • Taktu bækurnar strax úr töskunni og líttu yfir heimanámið.
 • Fylgstu með og skrifaðu niður aðalatriði. Ekki láta truflast eða trufla aðra nemendur.
 • Spurðu kennarann sértu óviss um hvernig eigi að leysa verkefni eða skilur námsefnið ekki fyllilega.
 • Skráðu hjá þér heimavinnuna og verkefni.

Heimalærdómur

 • Finndu út hvar og hvaða tími hentar best til heimanáms og athugaðu hvað þú þarft langan tíma fyrir hverja námsgrein.
 • Lærðu á sama stað og í ákveðinn tíma daglega.
 • Byrjaðu snemma á erfiðum verkefnum og skiptu þeim niður í smærri einingar.
 • Byrjaðu strax, forðastu að fresta hlutunum.

Ritgerðir og verkefni

 • Byrjaðu strax, áttaðu þig á umfangi og skipulegðu verkefnið.
 • Skiptu stóru verkefni niður í einingar og ef með þarf gerðu áætlun

Upprifjun

 • Til þess að muna það sem verið er að læra er þarf upprifjun.
 • Á hverjum degi skaltu líta yfir námsefni dagsins og gott er að taka stutta upprifjun í lok hverrar viku.
 • Dragðu saman aðalatriði hvers kafla þegar honum lýkur, eða gerðu mynd með skýringum.
 • Tengdu námsefnið við eitthvað sem þú þekkir.

Hvernig á að nota skóladagbókina ?

Skóladagbókin er minnisbók sem á að nota daglega, því þarf hún að fylgja þér í skólann

Gerðu áætlun

 • fyrir hvern dag fyrir allt það sem þú þarft að gera.
 • sem er raunhæf og stattu við hana.
 • sem gerir ráð fyrir hléum og hvíld.

Breyttu áætlun þinni þannig að hún hæfi þeim markmiðum sem þú setur þér.

 Skráðu niður

 • það sem á að læra fyrir næsta tíma.
 • öll verkefni og ritgerðir
 • allt það sem þú þarft að mæta í.

Athuga í byrjun og lok hvers dags hvað þarf að gera og hverju er ólokið.

Undirbúningur fyrir próf

 • Útbúðu strax lestraráætlun fyrir próf þannig kemurðu í veg fyrir tímahrak.
 • Gerðu yfirlit yfir öll atriði sem eru til prófs.
 • Leggðu á minnið helstu staðreyndir og reglur.
 • Gerðu spurningar úr námsefninu og svaraðu þeim síðan.
 • Hafðu með þér öll gögn sem nota þarf í prófinu og taktu með þér skriffæri til vara.

Í prófi

 • Byrjaðu á að lesa öll fyrirmæli á prófblaðinu.
 • Svaraðu fyrst þeim spurningum sem þér sýnast auðveldastar
 • Lestu hverja spurningu nokkrum sinnum yfir, til að vera viss um hvað spurt er um.
 • Breyttu ekki svari þínu nema vera viss í þinni sök.
 • Farðu yfir prófið að lokum og athugaðu hvort öllu hafi verið svarað.

Gangi þér vel.