Aðgerðir Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri vegna COVID19

Kæru foreldrar/forráðamenn. 

 Við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri starfa nú tvö viðbragðsteymi vegna COVID19. Annað teymið starfar á starfsstöð á Stokkseyri og hitt á Eyrarbakka. Teymin funda daglega og saman eftir þörfum. Teymið á Stokkseyri skipa Magnús J. Magnússon skólastjóri, Sigríður Pálsdóttir deildarstjóri, Karl Óskar Svendsen húsvörður,Vigdís Unnur Pálsdóttir ritari og Ágústa Baldursdóttir matráður. Teymið á Eyrarbakka skipa Páll Sveinsson aðstoðarskólastjóri, Sædís Ósk Harðardóttir deildarstjóri, Ragna Berg kennari og Fríða Rut Stefánsdóttir ritari. 

Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi vegna COVID19 hafa viðbragðsteymi BES gripið til eftirfarandi ráðstafanna og aðgerða er lúta að skólastarfi: 

 

  1. Breytingar verða á starfsemi mötuneyta, bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þær verða m.a. þessar: 
  • Nemendum verða afhentir diskar og hnífapör og þeim skammtaður matur. 
  • Salatbar verður lokað þar sem hann er opinn og óvarinn. 
  • Komið verður upp vatnstönkum fyrir nemendur og starfsmenn. Við óskum eftir því að nemendur komi með vatnsbrúsa í skólann til að minnka líkur á yfirborðssmiti. 
  • Nemendur geta ekki notað samlokugrill eða örbylgjuofna, þau tæki hafa nú þegar verið fjarlægð. 
  • Nemendum verður skipt í hópa í mötuneyti til að minnka nálægð á matmálstímum. Fjöldatakmarkanir nemenda verða í frímínútum og matartímum. Útbúnar verða tímarúllur þar sem nemendum verður skipt upp í hópa sem fara á mismunandi tímum í frímínútur og matarhlé. 
  1. Breytingar á fyrirkomulagi kennslu á unglingastigi á Eyrarbakka.  
  • Hingað til hafa nemendur ferðast á milli kennslustofa að sækja faggreinakennslu. Nú verður breyting á, bekkir verða í sínum heimastofum og munu faggreinakennarar fara á milli kennslustofa. Þetta fækkar sameiginlegum snertifötum nemenda. 
  • Skólaborð verða færð í sundur í kennslustofum til að draga úr nálægð. 
  • Fjöldatakmarkanir verða settar á setu nemenda í sófum í frímínútum, nemendum gert enn frekar kleift að dreifa sér um skólahúsnæðið. 
  1. Óskað hefur verið eftir auknum þrifum á húsnæði skólans, hurðarhúnar og sameiginlegir snertifletir verði sérstaklega vel þrifnir og sótthreinsaðir daglega. Sprittbrúsum hefur verið komið fyrir í mötuneytum, kaffistofum og í kennslurýmum. 
  1. Íþrótta- og sundkennsla fellur niður. Íþrótta- og sundkennarar munu sinna kennslu í þeim greinum með öðrum hætti í húsnæði skólans. 
  1. Starfsmannafundum verði stillt í hóf. 
  1. Aukið upplýsingaflæði verður bæði innan skólans og til nærsamfélags. 

 

Þar sem um fordæmalausar aðstæður er að ræða í íslensku samfélagi óskum við eftir að nemendur, foreldrar og starfsmenn skólans leggist á eitt um að framfylgja þessum aðgerðum með öryggi og heilsu okkar allra að leiðarljósi. 

Nánari upplýsingar veita stjórnendur. 

 

Stjórnendur og starfsmenn Barnaskólans á Eyrarabakka og Stokkseyri