Leiðarljós

 
Það var þegar vinna vegna afmælishátíðar skólans árið 2002 hófst sem fóru að koma upp hugmyndir um að þessi elsti samfellt starfandi grunnskóli á landinu þyrfti að eiga sitt merki. Síðan þegar vinnan í þróunarverkefninu GAGN fór í gang var fljótlega tekin ákvörðun um að gert yrði merki sem táknrænt væri fyrir skólann og starf hans og minnti um leið á eitthvað sem væri einkennandi fyrir þorpin tvö. Merkið átti að geta innihaldið sýn skólans, hugtökin jákvæðni, metnað, virðingu og heiðarleika.

Innsiglingarmerkin skutu fljótlega upp kollinum; þau er að finna í báðum gömlu sveitarfélagsmerkjum þorpanna. Ég var beðinn um að taka verkið að mér og eftir nokkrar tilraunir og útgáfur varð endanleg mynd merkisins sú sem hér verður kynnt. Sú útgáfa var kynnt á starfsmannafundi, borin undir atkvæði og samþykkt einróma. Í raun er um tvær útgáfur að ræða, önnur inniheldur sýn skólans en hin ekki. Sú útgáfa sem inniheldur sýnina verður einkum notuð á heimasíðu skólans, í skólanámskrá og öðrum slíkum vettvangi.

Merkið á að minna á nálægð Eyrarbakka og Stokkseyrar við hafið. Innsiglingarmerkin eru tákn þess að skólinn skuli ávallt leitast við að vera á réttri og öruggri leið og stefna í örugga höfn. Sýn skólans sem tengist merkinu er ætlað að árétta þetta.

Höfundur að merki: Böðvar Bjarki Þorsteinsson