Útskriftareglur

 

Heimild til útskriftar áður en 10 ára skólagöngu lýkur byggir á 32. gr. laga um grunnskóla nr. 91 frá 2008 og ákvæðum aðalnámskrár grunnskóla frá 2006.

 

Í 32. gr. laga um grunnskóla nr. 91 frá 2008 segir m.a.

,,Skólastjóri metur hvort nemandi hafi lokið grunnskólanámi og ber ábyrgð á útskrift hans úr grunnskóla. Heimilt er að útskrifa nemanda úr grunnskóla áður en tíu ára skyldunámi er lokið, enda uppfylli nemandi námskröfur grunnskóla í samræmi við lokamarkmið aðalnámskrár.

Í aðalnámaskrá grunnskóla frá 2006 segir:

,,Grunnskólanemendum sem hafa til þess námsgetu og þess óska er mögulegt að ljúka grunnskóla á skemmri tíma en tíu árum.(Aðalnámskrá grunnskóla, bls. 7)

Grunnskólalög heimila einnig að nemandi ljúki öllu námi grunnskóla á skemmri tíma en tíu árum. Hér er átt við að mjög dugmiklir nemendur geti útskrifast úr grunnskóla einu eða jafnvel tveimur árum fyrr en aldur þeirra segir til um. Eðlilegt er að leggja það í hendur skólans með aðstoð sérfræðiþjónustu skóla og að fengnu samþykki foreldra og forráðamanna að meta hvenær og hvernig flýting af þessu tagi fer fram. (Aðalnámskrá grunnskóla, bls. 24)

Á grundvelli ofangreindra ákvæða geta foreldrar og forráðamenn nemenda Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri sótt um að nemandi útskrifist úr grunnskóla við lok 9. bekkjar. Einnig geta nemendur 10. bekkjar útskrifast um áramót. Skólinn hefur mótað sér verklagsreglur, í samræmi við samskonar verklagsreglur í öðrum grunnskólum Árborgar. Reglurnar taka til ákvörðunar, mats og útskriftar nemenda úr Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri við lok 9. bekkjar og eftir níu og hálfs árs grunnskólagöngu.

 

Verklagsreglur vegna útskriftar 10. bekkinga um áramót

í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri

Heimilt er að útskrifa nemanda úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið, ef nemandi uppfyllir námskröfur grunnskóla í samræmi við lokamarkmið aðalnámskrár. (Lög um grunnskóla 2008 ) Nemanda ber því að ljúka öllu skyldunámi samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla áður en hann útskrifast þaðan. ( Aðalnámskrá Grunnskóla 2010)

         Námsefni 10.bekkjar skal lagt til grundvallar en tekið tillit til þess að nemendur lesa hluta þess utanskóla.

         Eftirtaldar námsgreinar skulu lagðar til grundvallar: Íslenska, stærðfræði, enska, danska, náttúrufræði og samfélagsfræði.

         Nemandi skal ná einkunninni 8,5 í Íslensku, stærðfræði og ensku á sérstökum “lokaprófum” sem fram fara í desember og hafi náð 7 í meðaleinkunn í hinum greinunum. Kennara viðkomandi námsgreina er þó í sjálfsvald sett að taka tillit til útkomu úr samræmdum prófum og haustannaprófum, við ákvörðun á lokaeinkunn.

         Nemandi skal hafa lokið 10. bekkjar sundprófi.

         Ástundun og frammistaða í öðrum námsgreinum skal vera ásættanleg.

         Nemanda stendur til boða félagsþroskamat hjá sálfræðingi skólans, óski forráðamenn þess.

         Nemandi sem hyggst útskrifast um áramót út 10.bekk skal tilkynna um þá ósk í upphafi vorannar í 9. bekk.